HEILBRIGÐI OG VELFERÐ
48
Mynd 16 sýnir dæmi úr námsefni grunnskóla þar sem fjallað er um kynlíf,
klám, kynferðislegt ofbeldi og misnotkun.
Forvarnaáætlanir
Skólum ber að sinna forvörnum, einkum gagnvart tóbaki, áfengi og öðrum
vímuefnum. Einnig ber að huga að fíknum á borð við net- og spilafíkn og grípa
þar til varna. Ætlast er til að grunnskólar geri sér forvarnaráætlun og birti hana
í skólanámskrá. Áætlunin á að taka til varna gegn fíkniefnum, áfengi og tóbaki
en líka einelti og áreitni, ofbeldi, vegna öryggismála, slysavarna og aga. Liggja
þarf fyrir hvernig skólinn ætlar að beita sér í forvörnum og hvernig brugðist
verður við vanda þegar hann kemur upp. Miklu skiptir að ræða þessi mál í öllu
skólasamfélaginu, kynna áherslur, stefnumið og viðurlög sem víðast og birta
vandaða áætlun í skólanámskrá. Á þessu sviði eins og öðrum er líka mikilvægt
að hafa nemendur með í ráðum og virkja þá sem oftast til góðra verka. Fella má
forvarnir að viðfangsefnum margra námsgreina og ýmiss konar félagslífi innan
skóla og utan.