HEILBRIGÐI OG VELFERÐ
42
sem hafa verið í basli með að fá barnið sitt til að fara í hrein föt eða í bað.
Tregða nemenda getur átt sínar skýringar í sjálfstæðistilburðum sem foreldrar
eiga erfitt með að taka á og hafa jafnvel gefist upp fyrir. Hirðuleysi, breytt
útlit og hegðun geta verið vísbendingar um alvarleg mál eins og kynferðislega
misnotkun og fíkniefnaneyslu. Eins og í leikskólum getur verið nauðsynlegt fyrir
yngstu nemendur grunnskóla að hafa aukaföt ef á þarf að halda. Þetta getur allt
eins átt við um unglinga sem hreyfa sig mikið úti í frímínútum eða matarhléi og
svitna mikið. Þegar barn hefur aldur og þroska til ætti það að vera regla að fara í
sturtu eftir íþróttir. Mikilvægt er að passa vel upp á samskipti barna og unglinga
í búnings- og sturtuklefum og gefa þeim nægan tíma til að þrífa sig, þurrka og
klæða. Þjálfa þarf nemendur í að þvo sér og þurrka, sýna tillitsemi og virðingu við
þessar aðstæður og líta á sturtuna sem eðlilegt framhald íþróttatíma.
Kynheilbrigði
Þroski manneskjunnar sem kynveru hefst í móðurkviði og honum lýkur við
ævilok. Kynþroskatímabil ungslingsáranna er aðeins hluti af þessu ferli. Miklu
máli skiptir að þekkja þroskaferli hvers aldurskeiðs og geta greint á milli þess
sem er eðlilegt og þess sem þarf að gefa sérstakar gætur. Markmiðið er að öll
börn verði kynferðislega heilbrigð, fær um að velja og hafna og átta sig á hvað
þeim er fyrir bestu. Börn eru ólíkir einstaklingar, sum eru t.a.m. forvitnari um
eigin líkama en önnur. Ung börn geta sýnt kynferðislega hegðun sem stingur
í augu fullorðinna en flest fimm til sex ára börn hafa náð að átta sig á hvaða
hegðun er viðeigandi eða óviðeigandi eftir stund og stað.