Grunnþættir menntunar
37
dag. Er þá átt við hreyfingu sem dugar til að barnið mæðist og svitni (Gígja
Gunnarsdóttir, 2010). Ánægjuleg reynsla ungs fólks af hreyfingu eykur auk þess
líkurnar á að það haldi við slíkum lífsvenjum þegar það eldist. Margar rannsóknir
sýna að hreyfing hefur jákvæð áhrif á fjölmarga þætti eins og námsárangur,
svefn, líðan, kvíða, þunglyndi, blóðþrýsting, blóðfitu, streitu, beinþéttni, úthald,
einbeitingu, vöðvauppbyggingu, þroska hjartavöðvans og efnaskipti. Að sama
skapi er hreyfingarleysi áhættuþáttur fjölmargra sjúkdóma.
Nauðsynlegt er að huga að hreyfingu í öllu skólastarfi. Íþróttir og sund
eru dæmi um námsgreinar þar sem hreyfing er meginviðfangsefnið. Þessar
greinar ná samt ekki að uppfylla hreyfiþörf barna á skólatíma. Því er æskilegt
að kennarar bjóði upp á stutta hreyfileiki eða þrautir í kennslustundum, einkum
á yngstu skólastigunum. Ýmsar hugmyndir um þetta má sjá í
Handbók um
hreyfingu fyrir grunnskóla
(Gígja Gunnarsdóttir, 2010) og
Hreyfistund
(Hildur Karen
Aðalsteinsdóttir, 2008).
Hreyfiseðillinn
Hreyfiseðill er tímabundinn samningur sem nýtist þeim sem óttast eða
treysta sér ekki til að taka þátt í skólaíþróttum. Þessi hópur er ekki stór en
notar oft læknisvottorð til að reyna að komast undan því að fara í leikfimi eða
sund. Ástæðurnar geta verið margar. Ekki er óalgengt að krakkar sem taka
snemma eða mjög seint út kynþroska reyni að komast hjá því að fækka fötum
fyrir framan samnemendur. Aðrar ástæður geta verið atriði eins og húðslit,
ofþyngd, kvíði eða þunglyndi. Þá má nefna að ýmsir nemendur, t.d. nemendur á
einhverfurófi eða með ADHD-einkenni þola oft illa að vera í hávaða í stóru rými.
Í stað þess að sleppa hreyfingu er mikilvægt að hvetja nemandann til að hreyfa
sig utan skólatíma undir umsjá foreldra sinna. Nemandi fær þá hreyfiseðil hjá
skólahjúkrunarfræðingi, íþróttakennara eða náms- og starfsráðgjafa. Foreldrar
ábyrgjast að fylla seðilinn út og kvitta fyrir hreyfingu. Þegar blaðið er útfyllt er því
skilað til skólans og þannig er hægt að fylgjast með iðkun nemandans. Þetta er
gott dæmi um samvinnu heimilis og skóla um úrlausnarefni sem oft hefur reynst
kennurum eða skólastjórnendum erfitt viðfangs.