Grunnþættir menntunar
29
Aðferðir kenndar við Thomas Gordon (2001) eru gott dæmi um hvernig efla
má færni í samskiptum. Hann leggur áherslu á færni fullorðinna í að beita virkri
hlustun og tjá sig skýrt og skilmerkilega. Þá er lykilatriði að beina athyglinni
að hegðun eða atferli en ekki persónu barnsins og áhrifum þeirrar hegðunar á
kennarann eða foreldrið. (Ég-boð – þú-boð). Börn geta auðveldlega tileinkað
sér þessa aðferð en það verður að gefa þeim tækifæri til að þjálfa hana sín á milli.
Við getum tekið dæmi um samtal á milli vinkvenna: – „Ég varð reið þegar ég sá
að þú tókst peysuna mína í leyfisleysi.“ Stelpan sem á peysuna kemur því skýrt
til skila við vinkonuna að hún reiddist þeirri hegðun að taka peysuna án leyfis.
Hér er sagt frá tilfinningum sem tengjast ákveðnum viðburði en ekki brugðist
við með hörðum og dæmandi orðum sem varpa litlu ljósi á líðan þess sem átti
hlutinn. Annað dæmi er samtal kennara og nemanda: – „Mér líður illa þegar ég
heyri hvernig þú talar við bekkjarbróður þinn.“ – Þarna fær nemandinn að vita
að hegðun hans og ljótt orðbragð kallar fram slæma líðan hjá kennara. Í stað þess
að dæma nemandann sjálfan er bent á hegðun hans og bein áhrif hennar á líðan
kennarans. Kennarinn hefði getað fellt dóm um nemandann en það hefði haft allt
önnur og verri áhrif: – „Þú ert óþolandi ruddi.“ Einnig má hafa í huga að það er
áhrifaríkara að gera athugasemdir á jákvæðum nótum en neikvæðum eins og sjá
má í dæmunum hér á eftir (Faber og Mazlish, 1995).
Heima
Í stað gagnrýni …
Foreldri:
Að sjá þig! Þú ert úfin og
ógreidd og ekki komin í skóna. Flýttu
þér nú annars verður þú of sein í
skólann.
Barn:
Ég get aldrei gert neitt rétt.
... má lýsa því sem vel er gert
og því sem eftir er:
Foreldri:
Þú ert bara næstum búin
að klæða þig. Komin í hrein föt og
sokka. Þú átt bara eftir að fara í
skóna og greiða sér.
Barn:
Ég geri það strax.