Grunnþættir menntunar
27
Samskipti
Jákvæð samskipti eru lykillinn að vellíðan og árangri. Maðurinn er félagsvera og
þarf að vera í góðum samskiptum við aðra. Sjálfsvitund felst í því að þekkja
sjálfan sig og félagsvitund í því að skilja aðra og geta sett sig í þeirra spor. Góð
samskipti snúast um virðingu, traust og samkennd.
Heimspekingurinn Martin Buber (1937) greindi samskipti manna annars
vegar í
ég – þú
samskipti (e.
I – Thou
) þar sem ríkir jafnrétti, virðing og traust og
hins vegar í
ég – það
samskipti (e.
I – It
) þar sem oft ríkir skeytingarleysi og jafnvel
hvöt til að nýta sér í hag persónuna í hlutverki þriðju persónu. Þessi ópersónulegu
samskipti eru oft ríkjandi á milli þeirra sem eru í valdastöðu og hinna sem eru
það ekki. Þetta hefur oft átt við um samskipti kennara og nemenda eða samskipti
heilbrigðisstétta og sjúklinga. William Watson Purkey (1996) setti fyrstur fram
kenningu sem sprettur af þessu og kölluð er á ensku
Invitational Theory.
Erfitt hefur
reynst að þýða heiti þessarar kenningar en stundum er hún nefnd nemendavæn
og sjúklingavæn nálgun enda hefur hún reynst vel við þjálfun heilbrigðisstétta og
starfsfólks í skólum. Purkey, John M. Novak og fleiri höfundar sem lagt hafa út
af kenningunni leggja mikla áherslu á að þeir sem hafa valið sér störf sem felast
í samskiptum eigi
stöðugt
að minna sjálfa sig á hvað skiptir meginmáli í þjónustu
við aðra og leggja sig fram um að sýna hlýlegt viðmót (Purkey og Novak, 1996).
Hæfni í samskiptum tekur að þróast strax við fæðingu. Börn læra það sem
fyrir þeim er haft og þeir sem eru í samskiptum við börn verða fyrirmyndir þeirra
um samskipti. Eins og í mörgu öðru hafa foreldrar og fjölskylda mest áhrif. Verji
barn stórum hluta vökutíma síns í skóla eru það samskiptin þar sem þau læra mest
af á þeim tíma. Samskipti hafa mikil áhrif á heilbrigði og velferð því í gegnum þau
byggist sjálfsmyndin upp og líðan er oftar en ekki afleiðing samskipta.
Í samskiptum endurspeglast ýmis viðhorf og gildi þeirra sem eiga samskipti.
Fyrir skólasamfélagið eru góð samskipti lykilatriði. Þau eru forsenda þess að
kennurum, öðrum starfsmönnum og nemendum líði vel í skólanum. Til að börn
læri að tileinka sér góð samskipti við aðra er árangursríkast að vera góð fyrirmynd
enda til lítils að kenna samskipti af bók eða öðru námsefni ef kennari ástundar
annað en áður var kennt.