Grunnþættir menntunar
35
Næring
Þörfin fyrir næringu er öllum ljós og vaxandi fólk þarf nauðsynlega að fá reglulega
fjölbreyttan og hollan mat í hæfilegum skömmtum. Embætti landlæknis gefur
út ráðleggingar um mataræði ásamt handbókum fyrir mötuneyti leik-, grunn-
og framhaldsskóla og þær má nálgast á heimasíðu embættisins. Samkvæmt
rannsóknum kemur um þriðjungur orkunnar, sem 15 ára unglingar fá, úr
fæðuflokkum sem gefa mjög lítið af vítamínum, steinefnum og trefjum (Inga
Þórsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir, 2006). Með því móti ná unglingarnir
ekki að uppfylla þörf sína fyrir þessi efni nema með því að innbyrða of margar
hitaeiningar. Það er því mikilvægt að börnum og ungmennum standi til boða
hollur og næringarríkur matur í skólanum. Einnig þarf að tryggja góð húsakynni
og nægilegan tíma til að matast – hvort sem nemendur koma með mat eða
hressingu að heiman eða fá hana í skólanum. Það er sjálfsögð krafa að sú næring
sem nemendur fá í skólum uppfylli skilyrði um góða og vel samsetta fæðu. Í
daglegu umhverfi nemenda er mikið af orkuríkum en næringarsnauðum mat sem
vafalaust á sinn þátt í því, samhliða of lítilli hreyfingu, að mörg börn og ungmenni
glíma við ofþyngd eða offitu.
En matur er ekki bara matur, að borða er félagsleg athöfn og umhverfið og
andrúmsloftið sem ríkir þegar matar er neytt skiptir ekki síður máli fyrir líðan
og heilsu en fæðan sjálf. Tíminn sem börnum er ætlaður til að matast skiptir líka
máli. Börn eru mislengi að borða og margir kannast við hálfklárað nesti sem
kemur heim aftur af því að nestistíminn var búinn eða mat sem þarf að kasta í
ruslatunnur. Huga þarf sérstaklega vel að þessum þáttum hjá nemendum á öllum
aldri. Hávaði í mötuneytum skólanna er áhyggjuefni og hefur stundum mælst yfir
heilsuverndarmörkum sem er ekki ásættanlegt. Til að draga úr hávaða í matsal
má horfa til þess að skipta nemendahópnum upp í fámennari hópa og nota t.d.
vaxdúka á borðin, það dregur verulega úr glamri frá diskum og hnífapörum.
Viðvarandi hávaði í mötuneyti skapar þreytu þar sem börnum er ætlað að ræða
við skólafélaga, njóta matar, hvílast og endurnærast og við því verður að bregðast.
1...,27,28,29,30,31,32,33,34,35,36 38,39,40,41,42,43,44,45,46,47,...76