Grunnþættir menntunar
31
Fjölmargir kennarar leggja mikla vinnu í að skapa góðan anda í sínum námshópum
og kenna nemendum ákveðna samskiptahætti. Margir skólar styðjast við
uppbyggingarstefnu Diane Gossen en hún nýtist vel til að kenna börnum sjálfsaga
og sjálfsstyrkingu (Guðlaug Erla Gunnarsdóttir og Magni Hjálmarsson, 2007).
Í samfélagi þar sem jákvæð samskipti, vinátta, virðing, samhygð og
umburðarlyndi eru í hávegum höfð er líklegt að fólki líði vel. Þegar búnar eru
til bekkjarreglur og bekkurinn fær að ræða hvernig öllum geti liðið vel koma í
langflestum tilvikum frá nemendum mjög góðar tillögur að reglum. Samræðan
innan hópsins gerir það að verkum að börnin og ungmennin leiða hugann að
því hvað þarf til að þeim líði vel og geti sinnt vinnu sinni. Það er lærdómsríkt að
rökræða, standa fyrir máli sínu, hlusta á rök annarra og endurmeta fyrri skoðanir.
Jákvæð samskipti einkennast af virðingu. Þau þurfa að vera uppbyggileg
jafnvel þó að málið snúist um neikvæða hegðun. Þá er mikilvægt að það komi
skýrt fram að það er hegðunin sem er gagnrýni verð en ekki persóna þess sem í
hlut á. Hegðun getur verið slæm en það að sýna slæma hegðun er ekki það sama
og vera slæmur eða illa innrættur.
Sigrún Aðalbjarnardóttir hefur rannsakað áhrif þjálfunar í samskiptum
á þroska og námsárangur og þar kom í ljós að þjálfun í samskiptum leiðir til
framfara í hópi nemenda:
Þær mikilvægu niðurstöður fengust einnig að nemendur sem fengu
sérstaka hvatningu í skólastarfi til að huga að samskiptum sínum
sýndu meiri
þroskaframfarir
í hugsun (sbr. viðtölin) en nemendur
sem ekki fengu slíka þjálfun (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007:191).
Í rannsóknum Sigrúnar (2007) kom einnig fram að miklu máli skiptir að þjálfa
nemendur í að leysa ágreining á farsælan hátt. Árekstrar milli nemenda stafa
oftast af 1) baráttu um hluti sem takmarkað framboð er af, t.d. bolta, mörkin á
skólalóðinni, athygli kennara, vináttu nýrra nemenda; 2) þörfum, s.s. fyrir að láta
til sín taka, viðurkenningu, gott sjálfsálit og árangur; 3) ólíkum viðhorfum og
skoðunum. Þjálfa þarf nemendur í að setja sig í annarra spor og gera sér grein
fyrir tilfinningum og líðan mótherja. Farsæl lausn felur í sér sátt þar sem tekið er
tillit til viðhorfa beggja aðila.