Grunnþættir menntunar
61
Skólahúsið og skólalóðin
Skólahúsið og skólalóðin mynda umgjörð um skólastarfið og í því geta falist
bæði möguleikar og skorður. Enginn dregur í efa að umhverfið hefur bæði
bein og óbein áhrif á alla okkar líðan. Mikil lífsgæði eru fólgin í því að starfa
í skólaumhverfi þar sem hugsað er fyrir góðri dagsbirtu, góðri loftræstingu,
réttri lýsingu, góðri hljóðvist, hlýlegu litavali, snyrtimennsku og greiðu aðgengi
að skólalóð sem höfða þarf jafnt til beggja kynja. Þegar nýr skóli er hannaður
eða eldra skólahúsnæði breytt er æskilegt að byggingin sjálf og skólalóðin myndi
eina heild þannig að skólalóðin víkki út hefðbundið kennslurými. Mikilvægt er
að leggja áherslu á leiksvæði sem kalla á fjölbreytta hreyfingu, ýta undir áræði
nemenda og nýta náttúrulegt umhverfi og græn svæði eftir því sem kostur er. Um
leið er mikilvægt að hafa augun opin fyrir möguleikum á borð við grenndarskóga
eða útikennslu á svæðum í næsta nágrenni skólans.
Sýnt hefur verið fram á að hugmyndafræðin um græna skóla eykur heilbrigði og
vellíðan. Hluti af þeirri hugmyndafræði er að auka í skólastarfinu hlut útikennslu
þar sem nemendur fá meðal annars að taka virkan þátt í umhirðu, ræktun og
flokkun. Með útikennslu fá þeir líka að njóta veðrabrigða, ólíkra birtuskilyrða
og árstíða árið um kring. Svæði þar sem finna má tré, gróður, steina og vatn geta
auðveldlega orðið að ævintýraheimi. Það reynir á líkamlegan styrk og andlegt þor
að fá að klifra upp í tré, leika sér í gróðri, hoppa á milli steina, sulla í vatni, þjálfa
jafnvægið, blotna og verða kalt. Það eykur félagsþroska að vera á skólalóð sem
býður upp á fjölbreytta samveru í leik og námi. Börn og unglingar sem fá að taka
þátt í að móta útisvæði, koma að uppbyggingu og viðhaldi þess læra að virða
umhverfið og bera ábyrgð á svæðinu.
Könnun sem gerð var í Toronto í Kanada sýndi jákvæða breytingu á hegðun
og líðan barna þegar skólalóð var breytt í samræmi við hugmyndir um grænar
skólalóðir. Samskipti barnanna urðu friðsamlegri og samstarfsfærni þeirra jókst,
m.a. í leikjum (Bell og Dyment, 2008). Frá fornu fari hefur líka verið vitað að
góð leið til að vinna gegn andlegri vanlíðan er að stunda ýmis útistörf eins og
garðyrkju. Sama máli gegnir um börn og unglinga. Græn skólalóð getur verið
steinn í vörðu skólastarfs sem hefur heilbrigði og velferð að leiðarljósi.
1...,53,54,55,56,57,58,59,60,61,62 64,65,66,67,68,69,70,71,72,73,...76