HEILBRIGÐI OG VELFERÐ
68
Lokaorð
Menntun snýst ekki bara um upplýsingar og þekkingu, þjálfun og færni, hún
snýst ekki síður um að vera í samfélagi við annað fólk og þroska hæfileika sína
sjálfum sér og öðrum til góðs. Skóli fyrir börn og ungmenni hefur því mörgum
hlutverkum að gegna. Skólinn er einn af hornsteinum menningar og samfélags
sem leggur áherslu á frelsi til athafna, tækfæri til þroska, jafnræði og samhjálp
með heilbrigði og velferð allra að leiðarljósi. Til að öll börn og ungmenni fái notið
hæfileika sinna og krafta þurfum við að leggjast á eitt um að búa þeim heilnæmt og
öruggt umhverfi, skipuleggja nám við hæfi, hvetja þau til þátttöku og fá sem flesta
í nærsamfélagi þeirra og nánasta umhverfi til samstarfs. Nemendur þurfa að þróa
með sér margvíslega lífsleikni, leikgleði, jákvæða og raunsanna sjálfsmynd byggða
á traustri þekkingu, færni í ákvarðanatöku, ábyrgðarkennd, tilfinningaþroska,
samskiptahæfni og seiglu sem gerir þeim kleift að takast á við margslungið nám
og margbrotna tilveru. Huga þarf að næringu nemenda, hvíld og hreyfingu ásamt
ýmsum þáttum sem tengjast heilsugæslu og almennu heilbrigði. Jafnframt þarf
að gæta að andlegri líðan, samskiptaerfiðleikum, ýmsum félagslegum vanda og
áföllum sem allir nemendur geta orðið fyrir einhvern tíma á sinni skólagöngu.
Skólinn er í vissum skilningi annað heimili nemenda og á stóru heimili er í mörg
horn að líta. Við höfum staldrað við í sumum þeirra, svipast um og stundum bent
á leiðir og kosti sem skoða má nánar. Þetta rit gerir efninu engin tæmandi skil en
verður vonandi til að hjálpa kennurum og öðrum sem koma að skólastarfi að
hugsa um, vaka yfir og sinna vel þeim mikilvæga grunnþætti menntunar sem hér
er nefndur heilbrigði og velferð.
3
1...,60,61,62,63,64,65,66,67,68,69 71,72,73,74,75,76