HEILBRIGÐI OG VELFERÐ
14
heilbrigðan lífsstíl og leiðir til farsæls lífs. Þessir þræðir eru skólaumhverfi, skipulagt
nám og samstarf við fjölskyldu og nærsamfélag. Með skólaumhverfinu sem börn,
ungmenni og starfsfólk hrærast í frá degi til dags er átt við öll samskipti innan
skólans, matinn sem börnin nærast á, hreyfinguna sem þau fá og hvíldina sem þau
njóta. Kennarar og starfsmenn skóla verða að hafa hugfastan sinn þátt í því að
skapa fyrir nemendur heppilegt umhverfi og vinnuaðstæður sem efla heilbrigði.
Þetta gera þeir fyrst og fremst með því að efla og tryggja góðan skólabrag, stuðla
að jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum og láta sig málefni nemenda varða.
Þeir geta einnig ofið inn í kennslugreinar sínar fróðleik um heilsutengd málefni.
Skipulagt nám undir leiðsögn kennara snýr að börnunum sjálfum þegar fjallað er
um þætti á borð við tilfinningar, samskipti, styrkleika og veikleika, um líkamann
og starfsemi hans og ýmsa þætti sem hafa áhrif á heilbrigði. Smám saman taka
börn og ungmenni ríkari ábyrgð á eigin velferð. Mikilvægt er að þau hafi í því
sambandi þekkingu og færni sem stuðlar að heilbrigðum lífsháttum og geti valið
það sem þeim er fyrir bestu í nútíð og framtíð. Eins og fram kemur í námskrám
grunn- og framhaldsskóla byggist námið að miklu leyti á einstökum námsgreinum,
námsþáttum og markmiðum en hver skóli hefur frjálsar hendur við útfærslu
og skipulag námsins. Mikilvægt er að allir nemendur fái tækifæri til að læra um
mannslíkamann og hvernig hann starfar. Í náttúrufræði og lífsleikni má fjalla um
grunnþekkingu á mannslíkamanum, þroskaferli og kynþroska, skaðsemi tóbaks,
áfengis, vímuefna og fleiri áhrifaþátta á heilsu. Þekking á réttindum og skyldum,
hollustu í fæðuvali, hreyfingu, ábyrgð og virðingu getur verið til umfjöllunar í
greinum á borð við lífsleikni, samfélagsfræði, heimilisfræði og íþróttir. Farsælt
samstarf við fjölskyldur nemenda og nærsamfélagið skiptir líka miklu máli.
Skólinn er hluti af stærra samfélagi og mikilvægi góðra tengsla og samskipta út
á við eykur fjölbreytni í námi og starfi. Í því felast tækifæri fyrir nemendur og
kennara til aukins skilnings og þroska samfélaginu öllu til heilla.