HEILBRIGÐI OG VELFERÐ
6
Inngangur
Um hvað snúast skólar fyrir börn og ungmenni? Hvaða hlutverki gegna þeir í
íslensku samfélagi eða á alþjóðavísu? Svör við þessari spurningu geta verið bæði
mörg og misvísandi en flest ættum við að geta sammælst um nokkur meginatriði.
Samkvæmt Walker og Soltis (1997) eru meginmarkmið skóla miðlun þekkingar,
félagslegt uppeldi og þroski einstaklingins.
Frá einu sjónarhorni er skólinn vaxtarreitur þekkingar og færni, frá öðru
uppistaða í samfélagsvefnum og enn öðru annað heimili barna og unglinga sem
öll þurfa að njóta stuðnings og leiðsagnar á þroskabrautinni. Skólanum er ætlað
að færa nýjum kynslóðum þekkingu og þjálfun, stuðla að öflugri menningu og
lífvænlegu samfélagi fyrir okkur öll og styðja nemendur, alla sem einn, til þroska.
Stundum er bent á skuggahliðar skólastarfs eða misbresti af ýmsu tagi, sumir sjá
í skólanum félagslegt taumhald og telja má víst að ekki njóti allir sömu möguleika
á sinni skólagöngu þótt að því sé keppt. Þekking hefur löngum setið í öndvegi
skólastarfs en rannsóknir sýna að skólinn þarf að sinna vel félagslegu uppeldi og
tilfinningaþroska barna og unglinga eigi fræðsla, færniþjálfun og þekkingarleit að
skila árangri. Andlegur og félagslegur þroski er ekki síður mikilvægur en þekking
og færni í starfi grunnskóla og jafnvel menntun yfirleitt. Ekki þarf heldur að
orðlengja mikilvægi góðrar heilsu, börn og unglingar þurfa öðrum fremur
heilnæmt loft og hreyfingu, dagsbirtu og hollan mat, fjölbreytileg verkefni og
hæfilega hvíld, öruggt umhverfi og góðan svefn um nætur.
Í nýrri menntastefnu á Íslandi eru skilgreindir sex grunnþættir sem eiga að
færa menntakerfið nær kröfum nútímans. Þeir eiga rætur í lögum, stefnumarkandi
yfirlýsingum og ýmsum alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að og
vilja hafa að leiðarljósi. Þeir gegna allir lykilhlutverki í menntun og skólastarfi en
tengjast líka á margvíslegan hátt og styðja hver annan með ýmsu móti.
Í þessu riti er fjallað um grunnþáttinn heilbrigði og velferð. Byggt er á lögum
og margvíslegri stefnumótun í anda þess sem lagt er fram í aðalnámskrá fyrir leik-,
grunn- og framhaldsskóla, almennum hluta (2011). Þar segir að í skólum þurfi að