Grunnþættir menntunar
31
borgar meira í vexti en hann fær, um 10% fólks borgar álíka mikið í vexti og það fær
en 10% fólks fær í gróða nær allt sem 80% þjóðarinnar hefur tapað á vöxtunum.
Peningakerfið sópar því stöðugt peningum frá þeim sem hafa lítið til hinna sem eiga
mikið og sífellt meiri peningar lenda í sífellt færri höndum. Þetta ríka fólk á mikið
fé sem flæðir um heiminn þangað sem gróða er von, t.d. í hlutabréfaviðskiptum, og
berst sumt mikið á. Oft eru háar tölur á hlutabréfum fyrst og fremst tölur í tölvu
og lítil raunveruleg verðmæti á bak við þær. Svo að kerfið er fallvalt og getur hrunið
eins og dæmin sanna.
20
Hagkerfi sem gerir sífellt færra og færra fólk ríkara og ríkara og fleira og
fleira fólk fátækt er ógn við lýðræði og mannréttindi. Ríkidæminu geta fylgt mikil
völd sem ekki lúta lýðræði nema að vissu marki en geta þó haft veruleg áhrif á
þjóðfélög. Auðmenn eiga sumir fjölmiðla og hafa með þeim áhrif og þeir geta
lagt mikið fé í kosningabaráttu fyrir sig og sína. Sumir eiga stórfyrirtæki og hafa
lítinn áhuga á að framkvæmdir þeirra og framleiðsla sé heft t.d. með friðun lands
eða reglum um mengunarvarnir og geta jafnvel leitast við að hafa sitt fram í krafti
auðs og valda. Þetta er ójafn leikur sem getur farið illa ef samtakamætti og lýðræði
er ekki beitt til varnar samfélagi og náttúru.
Skekkt verðmætamat hagkerfisins er náttúrunni dýrt. Ef verð á vöru lækkar
hefur það áhrif á hagvöxt en ef gæði náttúrunnar minnka kemur það hvergi fram
í hagskýrslum. Hagfræðin greinir ekki á milli nýtingar sem styrkir auðlind eða
hinnar sem eyðileggur hana. Þjóðir sem ofnýta auðlindir sínar koma hagfræðilega
Skýrsla Oxfam
Í janúar 2013 birtu alþjóðlegu hjálparsamtökin Oxfam skýrslu sína þar sem fram kom
að árstekjur hundrað ríkustu manna heims væru fjórfalt hærri en sú upphæð sem þyrfti
til að útrýma fátækt í heiminum. Eitt prósent þeirra Jarðarbúa sem ríkastir væru hefðu
60% hærri tekjur en þeir höfðu 20 árum fyrr. Ójöfnuður hafði því aukist mikið. Í skýrslunni
segir að gagnstætt því sem haldið hefur verið fram sé ekkert sem bendi til þess að
þeir fátæku njóti góðs af velgengni hinna ríku. Þvert á móti þá dragi slík auðsöfnun úr
hagvexti og skaði samfélagið sé til lengri tíma litið. Kerfisbundin mismunun geri þeim
ríkustu kleift að margfalda auðæfi sín og sleppa við að greiða skatta.
19