SJÁLFBÆRNI
46
Að undrast með börnum
Veröld barnsins er fersk og fögur, undursamleg og spennandi. Ógæfa okkar
felst í því að glöggskyggni flestra okkar, og innsýn í hvað er raunverulega fagurt
og hrífandi, dofnar eða jafnvel hverfur áður en við verðum fullorðin. Ef ég gæti
haft áhrif á heilladísirnar, sem sögurnar segja að komi til barnanna þegar þeim
er gefið nafn, þá bæði ég þær að gefa hverju barni heims þann eiginleika að
kunna að undrast og dást að og hann í svo ríkum mæli að hann entist alla
ævi. Sá eiginleiki veitti óbrigðult mótvægi við leiða og vonbrigðum seinni ára og
andlausu annríki í gerviveröld þar sem tengsl við eigin orkulindir eru rofin.
Börnum er meðfætt að undrast. Til að halda þeim eiginleika, án gjafa heilladísa,
verður barnið að njóta félagsskapar að minnsta kosti einnar fullorðinnar
manneskju sem getur undrast með því, og fundið á ný gleðina, eftirvæntinguna
og leyndardómana sem búa í veröld okkar. Foreldrar finna oft til vanmáttar þegar
þeir standa annars vegar frammi fyrir ákafa og næmni barna sinna og hins vegar
veröld sem er flókin í eðli sínu og með lífríki svo fjölbreyttu og framandi að það
virðist vonlaust að átta sig á því. Í uppgjöf útskýra þeir: „Hvernig á ég að geta
kennt barninu mínu eitthvað um náttúruna, ég þekki ekki einu sinni nokkurn fugl.“
Ég trúi því staðfastlega að öllum börnum og öllum foreldrum sem vilja leiðbeina
þeim, sé miklu mikilvægara að skynja en kunna. Ef staðreyndir eru fræ sem síðar
þroskast í þekkingu og visku þá eru hughrif og tilfinningar sá frjói jarðvegur sem
fræin þurfa til vaxtar. Og jarðveginn þarf að undirbúa snemma í æsku. Þegar
tilfinningarnar hafa vaknað – skynjun fyrir því fagra, eftirvæntingin eftir hinu nýja
og óþekkta, samúð, meðaumkun, aðdáun eða ást – þá leitum við þekkingar
um fyrirbærið sem vakti hughrifin. Um leið og við höfum öðlast hana skiptir
hún okkur máli til frambúðar. Það er mikilvægara að vekja áhuga barnsins á
þekkingunni heldur en að bera því staðreyndir sem það er ekki tilbúið að taka við.
Foreldrar geta veitt barni sínu mikið jafnvel þótt þeim finnist að þeir þekki
náttúruna lítið. Hvar sem er, og hverjar sem aðstæður eru, þá má horfa upp
í himininn, á fegurð dögunar og kvöldhúms, á hreyfingar skýjanna, á stjörnur
næturinnar. Hægt er að hlusta á vindinn, hvort hann þýtur hávær í trjánum eða
syngur margraddaðan kór við þakskegg eða horn hússins og þegar hlustað er