Page 8 - Læsi

LÆSI
6
LÆSI Í NÝJUM BÚNINGI
Læsi er margþætt. Í þessu riti situr læsi í víðu samhengi í fyrirrúmi en það teng-
ist samt óhjákvæmilega þrengra samhengi rétt eins og fjöll tengjast dölum (þótt
greina megi þessi fyrirbæri í sundur). Þættirnir í læsi eru með öðrum orðum sam-
ofnir og þeir verka saman. Við þurfum til dæmis að geta breytt bókstöfum í hljóð,
tengt hljóð saman í orð, notað orð til að búa til málsgreinar, efnisgreinar, kafla og
bækur en jafnframt verðum við að geta ráðið í ýmsar vísbendingar um hugsun og
merkingu í ritmálinu. En við þurfum einnig að geta tengt efni þess við það sem
við höfum reynt og upplifað. Læsi snýst um samband orðanna við lífið sjálft, það
sem við köllum raunveruleikann, og flest það sem við tökum okkur fyrir hendur.
Það er ansi mikið.
Læsi er því snúið og það sem í því felst – ritun og lestur – tekur breytingum.
Það á sér ekki stað í tómarúmi og á hverjum tíma reynum við kennarar að átta
okkur á framvindu þess. Nú á dögum er til dæmis oft sagt að samfélög víða um
heim séu upplýsingasamfélög eða þekkingarsamfélög og læsi þurfi að taka mið
af því. En hafa samfélög ekki alla tíð snúist um upplýsingar og þekkingu? Einnig
er bent á að við lifum á tímum upplýsingatækni og margmiðlunar og sagt að
nauðsynlegt sé að líta til læsis með hliðsjón af því. En hefur sú uppfinning manna
að nota tákn til að móta og varðveita hugsanir sínar og þekkingu, og gera efnið
aðgengilegt öðrum, ekki alla tíð snúist um tækni? Kannski er það sem við tölum
um sem
notkun upplýsingatækni í námi og kennslu
frekar uppskrúfuð lýsing á því sem
skólanemendur og rithöfundar hafa fengist við á öllum tímum: að skapa merk-
ingu og nota til þess tiltekna tækni. Svipað virðist gilda um margmiðlunina í skóla-
starfinu þegar við notum efni og aðferðir sem miðast við mörg skynfæri. Hafa
kennarar ekki notað alls konar efnivið og ýmis verkfæri í skólastofum áratugum
eða jafnvel öldum saman, teiknað skýringarmyndir á töfluna, notað landakort eða
sýnt kvikmyndir? Hafa nám og samskipti nemenda ekki einkennst af fjölbreyttri
tjáningu langalengi? Hafa þeir ekki skrifað og teiknað í vinnubækur, búið til líkön,
föndrað, sungið, sett upp sýningar og leikrit?
1