Page 59 - Læsi

Grunnþættir menntunar
57
tengja saman fortíð og nútíð, gera þeim fært að meta og skilja nútímann jafnt í
ljósi þess sem var og gæti orðið, þarf hann að gera menningu skólanemenda hátt
undir höfði – menningu stafrænnar tækni, margmiðlunar, fjölmenningar og net-
samskipta.
Hvað læsi í víðum skilningi varðar skiptir ef til vill mestu máli að nemendur
glími við alls kyns efni – t.d. efnið í sjónvarpinu, auglýsingar í ýmsum miðlum,
kynningarefnið sem berst inn um bréfalúguna, blöð og ástarsögur – og átti sig
á því hlutverki sem þeir gegna sjálfir við að skapa merkingu þess. Þá ríður á því
að kennari og nemendur skapi í sameiningu orðræðuhefð sem leyfir umbúðalaus
skoðanaskipti þannig að „skilningsleitin“ felist ekki í því að nemendur giski á,
eða komist að því, hvernig kennarinn skilji efnið og beri túlkun hans á því sífellt
á borð.
Merkingarbær skólaverkefni snúast óhjákvæmilega um það sem gefur lífi
nemenda gildi. Eins og við öll búa þeir í líf-menningarlegu (e.
biocultural
)
umhverfi
og má segja að í sinni víðustu mynd snerti læsi þá þekkingu og þau samskipti sem
gera þeim kleift að hlutast til um umhverfi sitt, til að mynda varðandi vöxt og
viðgang náttúrunnar og jafnrétti og lýðræði, á þann veg að þeir og afkomendur
þeirra geti búið við öryggi og velsæld. Læsi í þessum skilningi, læsi sem víðtæk
samskiptafærni, er því pólitískt og færir ungu fólki verkfæri og vald til að beita
orðum og öðrum táknum í eigin þágu og samfélags síns og umhverfis.
Í bók sinni
Teaching Digital Natives: Partnering for New Learning
sem kom
út árið 2011, ræðir Marc Prensky um kennslu sem tekur mið af skjáningum
(
skjár + táningur = skjáningur), þ.e. því unga fólki sem hefur alist upp í heimi
tölva og nets. Eftirfarandi samantekt er byggð á bók hans.
Ekki er langt síðan konur stóðu í skugga karla, nutu ekki jafnréttis og tækifæra á við þá
þannig að kraftar þeirra komu hvorki þeim né samfélaginu að gagni. Svipað gildir nú um
annan stóran hluta mannkyns, þ.e. þá sem eru 25 ára og yngri. Það blasir hins vegar
við að í hinni stafrænu veröld geta eldri kynslóðir lært margt af unga fólkinu rétt eins og
æskufólk af þeim sem eldri eru. Á þessu tvennu má byggja menntastefnu framtíðarinnar,
stefnu sem byggist á gagnkvæmu trausti og leitar jafnvægis í samskiptum kynslóðanna.