LÆSI
56
LÍFIÐ SJÁLFT
Halldór Laxness segir að læsi hafi verið Íslendingum lífið sjálft. Í umfjöllun
um söguhetjur íslenskra bókmennta á 13. og 14. öld kemst hann svo að orði:
[
Á] ... þeim tímum sem á eftir komu, urðu hetjur þessar að hug-
sjón, að sniði og fyrirmynd íslenskrar skapgerðar; og þessi fyrir-
mynd hefur verið í gildi hjá öllum körlum og konum öld frammaf
öld síðan [...]; söguhetjurnar lifðu meira að segja sterkara lífi og
voru raunsannari í hug þjóðarinnar en nokkrar endurminningar um
persónur eða orðstír þeirra manna nokkurra sem hægt var að sanna
að hefðu lifað í holdinu.
Þannig færir hinn táknbundni arfur hverri kynslóð þá samvitund og það samhengi
sem þjóð þarfnast til að viðhalda lífsháttum sínum og menningu eða umbreyta
henni án þess að sameiginlegir þræðir rakni upp. Enn er læsi Íslendingum lífið
sjálft og umræðan um það nú á tímum snýst ekki síst um að henda reiður á því
hvað sé menning og hvaða þátt hún eigi í að móta sjálfsmynd ungmenna. Sú
veigamikla mynd snýst um það hvernig þau upplifa sjálf sig í veröldinni og hefur
þannig mikil áhrif á hugsun þeirra og gjörðir. Spurningin um það hvernig skólar
eigi að bregðast við tækniþróuninni, t.d. á vettvangi net- og margmiðlunar, tengist
beint þeirri grundvallarspurningu hvers konar gildi og menningu eigi að standa
vörð um og endurskapa í skólastarfi.
Hér er því spurt um inntak þess sem lesið er eða skrifað. Hvers konar menn-
ingu viðurkennir skólinn og hvaða tengsl eru eða ættu að vera milli hans og
menningarlífsins í samfélaginu? Menning hverrar kynslóðar hverfist um þá miðla
sem hún notar og það efni sem þeir birta á hverjum tíma orkar á sjálfsmynd
hennar og samvitund, hugmyndaheim hennar og hugðarefni. Þess vegna skiptir
það feikimiklu máli að nemendur geti beitt þeim miðlum í námi sínu sem þeir
nota mest og fjallað í skólaverkefnum sínum um menningu sem er þeim jafn
mikilvæg og hugleikin og sú menning sem sum okkar sem eldri erum tengjum
við Njálu, Stiklur eða síðasta lag fyrir fréttir. Ef skólinn vill hjálpa nemendum að
9