Grunnþættir menntunar
55
Miðlalæsi í víðu samhengi
Miðlalæsi getur tengst öllum námsgreinum og felur fremur í sér nýja nálgun og
hugtök en nýja námsgrein. Slíkt læsi er þó nátengt tungumálinu sem kemur að
sjálfsögðu mjög við sögu í alls kyns miðlun. Það er því eitt af meginstefnumiðum
miðlamenntar að auka færni ungs fólks í að beita tungumálinu, talmáli jafnt sem
ritmáli, og auka skilning þess á því hlutverki sem það gegnir í samspili við önnur
mál, t.d. myndmál.
Miðlamennt snýst þó ekki eingöngu um að nemendur noti ýmsa miðla í skól-
anum; ætlunin er að þeir fræðist um eðli þeirra og hlutverk í samfélaginu í leiðinni.
Til dæmis er nauðsynlegt að nemendur átti sig á hlutverki fjölmiðla í lýðræðissam-
félagi og þeim áhrifum sem þeir geta haft á hegðun fólks og skoðanir.
Nám í anda miðlamenntar getur jafnframt stuðlað að sveigjanlegum og
lýðræðislegum vinnubrögðum. Nemendur stjórna slíku námi meira en almennt
gerist, velja til dæmis oft viðfangsefni sjálfir en bera jafnframt ábyrgð á skipulagi
þess og framvindu. Efnisgerðin felur óhjákvæmilega í sér samvirkt nám enda
miðast hún við hópa þar sem nemendur koma sér saman um verkaskiptingu. Hún
helgast af því sjónarmiði að fólk læri ekki mest í samkeppnisumhverfi heldur við
aðstæður þar sem það nýtur krafta og innsæis hóps.