Page 54 - Læsi

LÆSI
52
og víðfeðmari merkingu getur því falist í að semja texta eða handrit fyrir ólíka
miðla, búa til útvarpsþátt, margmiðlunarverk, myndband eða vef.
Hér er það kjarni málsins að miðlunarferlið – eins og reyndar hefðbundin
ritun – leiðir til náms. Miðillinn er ekki aðeins tæki sem nemendur nota til að
miðla því sem þeir hafa þegar skilið; þeir öðlast skilninginn við efnisgerðina.
Við hana þurfa þeir til dæmis að gera greinarmun á aðalatriðum og aukaatriðum,
tengja efnisþætti saman og huga að heildarmyndinni. Þeir þurfa einnig að læra að
setja sig í spor annarra en það er ef til vill sú færni í samskiptum og miðlun sem
vegur þyngst. Með því að nota ólíka miðla kynnast nemendur jafnframt kostum
þeirra og göllum. Prent var löngum eini lærdómsmiðillinn en nú geta nemendur
valið miðil við hæfi, líkt og fólk velur það tól úr verkfæratöskunni sem það veit
að dugar best til að vinna verk hverju sinni. Helstu miðlunartólin eru nú í tölvum
og við þær tengjast jaðartæki sem eru ómissandi við efnisgerðina, t.d. hljóðnemi,
teikniborð eða tökuvél. Slík verkfæri geta nemendur notað í öllum greinum, jafnt
bóklegum sem list- og verkgreinum.
Nálgun og framsetning
Ef það sem nemendur skrifa er í molum eða efnið í fræðslumyndinni þeirra „er úti um
allt“ er skýringin ef til vill sú að það vanti hugmynd til að halda því saman. Slík hugmynd
er ekki umfjöllunarefnið sjálft heldur
tiltekin hugmynd um framsetningu
sem ræður því
hvernig þeir nálgast efnið. Það er ekki nóg að þeir ákveði að fjalla um elliheimili; þeir
verða að afmarka efnið og ákveða hvernig þeir ætla að nálgast það. Á hvaða sjónarhóli
kjósa þeir að vera þegar þeir virða fyrirbæri fyrir sér eða leitast við að lýsa því?
Umræðuefni:
Elliheimili.
Nálgun:
Vist á elliheimili kann að draga úr frumkvæði og lífsgleði gamals fólks.
Ákvörðun um nálgun leiðir til spurningar: „Draga elliheimili úr frumkvæði og lífsgleði
gamals fólks?“ Ritsmíðin eða efnisgerðin felst í því að leita svara við spurningunni og setja
fram niðurstöður. Nemendur hugsa málið, kanna heimildir eða afla efnis með hliðsjón af
spurningunni og hún (og þar með nálgunin) kann vel að breytast í því vinnsluferli. Kannski
yrði uppistaðan í verkinu á endanum svona: