Grunnþættir menntunar
49
Í janúar 2012 birtist eftirfarandi forystugrein á vefsíðu Baggalúts (baggalutur.
is) Hvað finnst þeim sem sinna uppeldi og lestrarkennslu um þau sjónarmið
sem koma fram í greininni?
Af læstu læsi
Einhverjir hafa verið að býsnast og belgja sig yfir könnun sem gaf í skyn að 23% 15 ára
pilta á Íslandi væru meira eða minna ófærir um að „lesa sér til gagns“ – eins og það var
orðað svo hnyttilega.
Nú þekki ég sæmilega til íslenskra unglingspilta, var m.a. einn slíkur á tímabili. Og eitt
get ég fullyrt. Þessir álappalegu unglingsapar eru fullfærir um að lesa sér til gagns –
altsvo að lesa það sem gagnast þeim.
Þeir geta á augabragði litið á smáskilaboð í símanum sínum og lesið þar úr torræðum
táknum, sér til gagns. Þeir geta á örskotsstundu lesið í táknheim og myndmál
risavaxinna flókinna tölvuleikja, sér til ómælds gagns. Þeir geta um leið greint það á
jútúbmyndbandi hvort það sé þess virði að horfa á til enda, sér til gagns. Þeir þekkja og
kunna skil á aragrúa kvikmynda, sjónvarpsþátta, teiknimyndasagna og vörumerkja – og
neyta fjölbreyttrar tónlistar daglega. Þeir lesa virði alls þessa, notkunargildi og innihald
án fyrirhafnar. Vanti þá upplýsingar rata þeir án fyrirhafnar um alla afkima netsins. Sér
til gagns.
Mér er raunar til efs að nokkur kynslóð hafi verið jafn móttækileg fyrir upplýsingum og
einmitt íslenskir 15 ára drengir í dag. Jafn fljúgandi læs á ólíklegustu tákn og myndir,
sem gamlingjar eins og ég botna hvorki upp né niður í.
Eitthvað verður undan að láta. Í augnablikinu eru það óspennandi og andlausar íslenskar
námsbækur, leiðigjarnar og lummó. Ef ætlunin er að að ná athygli og áhuga 15 ára
íslenskra drengja – mennta þá – verðum við að gjöra svo vel að taka samkeppnina
alvarlega.
Að öðrum kosti fyllist þeirra kviki haus af öllu öðru – oftar en ekki einhverri froðu sem
við sem eldri erum teljum miður æskilega.
Ég hef litlar áhyggjur af læsi íslenskra pilta. Það sem ég hef áhyggjur af er að 91%
íslenskra 15 ára stúlkna láti enn narra sig til að stauta sig fram úr úreldri samskiptatækni,
sér til ógagns.