LÆSI
42
samvirkninnar: þjálfun á einu sviði máls, hvort sem það er í hlustun, tali, lestri eða ritun,
stuðlar að framförum og færni á öðrum sviðum þess.
Nemendur skrifa texta til að skýra og rökstyðja mál, setja fram tilgátur og renna stoðum
undir þær, koma þekkingu sinni á framfæri og tjá upplifun eða tilfinningar. Þeir verða að
huga að tilgangi skrifanna og velja orð og tjáningarform við hæfi. Þeir verða að kunna
að tengja saman mismunandi horf eða tegundir texta, t.d. að nota frásögn til að styðja
röksemdafærslu eða skerpa fræðilega útlistun með lýsandi sögum. Þeir verða að rækta
með sér þá þrautseigju og einbeitingu sem þarf til að skrifa frambærilegan texta.
Börn og unglingar lesa oft á markvissan hátt og af mikilli einbeitingu utan veggja skólans.
Þess eru dæmi að nemendur hafi lesið og skrifað um tölvuleiki af mikilli íþrótt í frítíma
sínum en ekki sett sig í slíkar stellingar í tímum. Lestraráhugi nemenda ræðst af ýmsum
persónulegum og félagslegum þáttum sem hafa áhrif á það hvort þeir lesa eða lesa ekki
og hversu oft þeir kjósa helst að lesa þótt annað sé í boði. Ef nemendur hafa ekki áhuga
á því að lesa eru litlar líkur á að þeir hafi gagn af tilsögn í lestri. Það getur því skipt öllu
máli að vekja áhuga þeirra og viðhalda honum. Í því efni getur það skipt sköpum að
kennarinn þekki nemendur sína vel.
Nemendur verða að geta beitt upplýsingatækni á markvissan hátt við ritun, endurritun
og lagfæringar jafnt sem samvinnu við ritsmíðar. Þeir þurfa jafnframt að venjast því að
stafrænn texti sé sveigjanlegt tjáningarform sem kalli á uppfærslu og endurnýjun og
síbreytilegt samspil orða, ljósmynda, stikla, hljóðs og lifandi mynda.
Til þess að kennarar geti ákveðið hvaða aðferðum þeir vilja beita við lestrarkennslu
verða þeir að taka hugmyndir sínar um fyrirbærið
lestur
til athugunar og vega og meta
kenningar og aðferðir í ljósi reynslu sinnar og hugmynda um menntun. Þeir verða að
hafa í huga að lestrarnám hverfist um tvennt: „að læra að lesa“ og „lesa til að læra“.