Grunnþættir menntunar
41
Svipaðir þættir skjóta gjarnan upp kolli í stefnumótunarplöggum um læsi og
verða nokkrir þeirra nefndir hér á eftir. Hvaða þætti væri athugandi að hafa
til hliðsjónar við mótun læsisstefnu í þínum skóla?
Nemendur þurfa að kynnast frásagnarlist og orðfæri skálda og fræðimanna og þeim
þankagangi og innviðum sem þeir byggja ritverk sín á. Með því að lesa sögur og
ævintýri, leikrit og ljóð frá ýmsum löndum, víkkar hinn menningarlegi sjóndeildarhringur
nemenda og þeir kynnast mismunandi efnistökum og stílbrögðum, fornum og nýjum. Vel
skrifuð verk auka skilning þeirra á því sem einkennir mannlega tilveru og þeir geta haft
þau sem fyrirmynd þegar þeir hugsa og skrifa um flókin efni.
Með því að lesa efni í ýmsum greinum, t.d. sögu, samfélagsfræði eða náttúrufræði,öðlast
þeir ekki aðeins grunnþekkingu á viðkomandi sviði heldur einnig yfirsýn sem gerir þá
að betri lesendum á öllum sviðum. Skipuleggja þarf námið þannig að nemendur öðlist
stigvaxandi skilning á samhengi hlutanna, á hverju námsári og í náminu í heild. Þegar
glíma nemenda við lesefni ýtir undir slíkan skilning aukast líkur á því að lestur verði
veigamikill þáttur í lífi þeirra. Þeir átta sig á að hann geti verið lykill að mörgu sem þeir
telja eftirsóknarvert.
Nemendur þurfa að læra að skrifa til að koma skoðunum sínum á framfæri og styðja
þær með rökum, til að sýna að þeir átti sig á tilteknu námsefni og til að segja frá
reynslu eða atburðum, raunverulegum eða ímynduðum. Þeir þurfa að læra vinnubrögð
við rannsóknarverkefni þar sem þeir leggja mat á gögn og heimildir og vinna úr þeim
með ýmsum hætti. Til þess að unnt sé að ná slíkum markmiðum í skólastarfi þurfa
nemendur að reyna reglulega á sig við ritsmíðar.
Nemendur þurfa að fá mörg tækifæri til að tala saman á uppbyggilegan hátt og í
ákveðnum tilgangi, í bekknum sem heild, smærri hópum eða við sessunautinn. Þeir
þurfa að læra að halda sig við efnið, hlusta á það sem aðrir segja og bregðast við því,
finna hliðstæður og andstæður, greina og tengja saman hugmyndir á ýmsum sviðum.
Nemendur þurfa að kynnast byggingu og hefðum móðurmáls síns. Það þarf að hjálpa
þeim að auka orðaforðann og átta sig á samspili orða, eiginlegri og óeiginlegri merkingu
þeirra og ýmsum blæbrigðum tungunnar. Einnig þurfa þeir að venjast því að huga
að merkingu orða sem koma fyrir í samræðum eða texta. Í þessu efni gilda lögmál