Grunnþættir menntunar
39
Meiri tími í þágu læsis.
Ekki er líklegt að þær aðferðir sem nú hefur verið lýst
breyti miklu ef kennsla og þjálfun sem varðar beinlínis lestur og ritun er bundin
við eina kennslustund á dag; þær þurfa að vera tvær til fjórar. Móðurmálskennarar
myndu að sjálfsögðu sinna hluta þessarar kennslu en það sem upp á vantaði færi
þá fram í öðrum tímum en íslenskutímum en með því móti að jafnvægi væri milli
kennslu í inntaki greinar og þjálfunar í lestri og ritun á viðkomandi fagsviði. Hér
er ef til vill kominn nýr póll í kennslu faggreina sem þeir sem eiga hlut að máli
þurfa að taka afstöðu til.
Starfsþróun.
Með þessu orði er ekki aðeins vísað til stakra endurmenntunar-
námskeiða heldur viðvarandi starfsþróunar á vinnustaðnum sem líklegt er að hafi
varanlegri áhrif á þekkingu og verklag kennaranna. Allt starfsfólk þarf að taka
þátt í umbótastarfinu og starfið sem tengist því þarf að eiga sér stað á skóla-
tíma. Starfsliðið fær þá tækifæri til að kynna sér nýjar rannsóknir og hugmyndir
og skólastjórnin semur aðgerðaáætlun varðandi þær breytingar sem fólk er sam-
mála um að gera. Þverfagleg teymi, meðal annars hópur sem sinnir læsismálum
sérstaklega, sjá svo um að hrinda breytingum í framkvæmd, meta þær og endur-
skoða, meðal annars með hliðsjón af leiðsagnarmati og lokamati.
Í skýrslunni er sagt að starfsmenn skólanna þurfi að ræða betur saman um það sem
geti falist í hugtökunum læsi og lestrarkennsla. Til dæmis þurfi að ræða um lesfimi,
lesskilning og læsi í víðum skilningi. Taka þurfi upp lestrarkennslu í öllum bekkjum
grunnskólans og tengja hana við sem flestar námsgreinar. Verðandi kennarar þurfi
því að fræðast um lestur í tengslum við þær námsgreinar sem þeir hyggjast kenna.
Í þessu felist að lestrarfræði sé viðfangsefni á mörgum kjörsviðum kennaranáms.
Einnig sé nauðsynlegt að auka samstarf og samráð í læsismálum, t.d. milli kennara,
skóla og ráðandi stofnana. Það dragi úr faglegri einangrun, stuðli að nýbreytni í
lestrarkennslu og faglegu starfi. Jafnframt sé mikilvægt að þeir sem kenna lestur og
ritun eigi kost á endurmenntun. Ef íslenskukennarar eigi að kenna upplýsingalestur
þarfnist þeir þjálfunar og námsgagna á því sviði.