Page 40 - Læsi

LÆSI
38
en jafnframt þarf kennarinn að ræða reglulega við nemandann um matið og fram-
vinduna í náminu. Með þessu móti fá nemendur reglulega uppbyggileg viðbrögð
við verkum sínum, ekki síst þeim sem hafa tekist vel, og skynja að kennaranum er
annt um að þeim fari fram.
Er þá komið að nokkrum þáttum sem varða skipulag skólastarfsins og þá aðstöðu
sem skólayfirvöld og skólastjórn skapa nemendum og kennurum.
Árið 2009 gaf Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands út skýrslu þar sem
greint er frá niðurstöðum rannsóknar á stöðu lestrarkennslu í íslenskum
grunnskólum. Niðurstöðurnar í hnotskurn fara hér á eftir og gæti það verið
liður í mótun læsisstefnu að starfsfólk skóla skiptist á skoðunum um þær.
Nær allir kennarar og skólastjórar eru sammála um að lestur snúist í senn um lestrartækni
og skilning. Lestrarkennslan í fyrstu bekkjum grunnskólans er í föstum skorðum og vel
er fylgst með framför nemenda. Kennarar eru meðvitaðir um þær aðferðir sem þeir
nota og grípa til viðeigandi ráðstafana ef einhver heltist úr lestinni. Hljóðlestraraðferðin
er sú aðferð sem flestir beita í fyrstu bekkjum grunnskólans og námsmatið snýst oft
um lestrarhraða.
Eftir fjórða bekk kemst los á skipulag lestrarkennslunnar. Má segja að formlegri
lestrarkennslu ljúki að mestu á miðstigi grunnskólans enda óljóst hverjir eigi að
sinna henni og hvernig. Þetta bitnar á nemendum sem eru hæg- eða torlæsir þótt
þeir stríði ekki við lestrarörðugleika á borð við lesblindu. Á því stigi er lögð áhersla á
bókmenntalestur og yndislestur en lítil rækt lögð við upplýsingalæsi.
Lestrarkennsla á unglingastigi er iðulega ómarkviss. Námsgögn vantar, fastmótuðum
kennsluaðferðum er sjaldnast beitt og formlegt námsmat, annað en samræmdu prófin,
fer sjaldan fram. Margir íslenskukennarar leggja áherslu á málfræði og sumir
þeirra segjast alls ekki kenna lestur. Jafnvel í þeim fáu skólum þar sem stefna
hefur verið mörkuð um lestrarkennslu á öllum stigum er lögð mun meiri áhersla á hana í
yngri bekkjunum. Þeir sem kenna nemendum í 10. bekk telja það eitt helsta verkefni
sitt að vekja áhuga unglinga á lestri en þeim finnst mörgum að þá skorti úrræði og
stuðning til að gera það. Þrátt fyrir mikinn tölvuáhuga nemenda á unglingastigi eru
tölvur lítið notaðar þar við lestrarþjálfun.