Grunnþættir menntunar
37
Einstaklingsbundin aðstoð.
Sumir nemendur þurfa að fá sérstaka aðstoð á til-
teknu tímaskeiði við að lesa námsefni og auka lesfimi sína. Aðra þarf að styðja
vel í tiltölulega stuttan tíma svo þeir komist yfir erfiða hjalla við lestur ákveðinna
námsgreina.
Fjölþætt lesefni.
Stundum eru nemendur í öngum sínum vegna þess að bæk-
urnar sem þeim er ætlað að lesa eru of þungar fyrir þá; þeir ráða ekki við að
umrita eða afkóða orð og skilja efnið í sömu andrá. Af þessum sökum læra þeir
lítið af bókum. Draga má úr þessum vanda með því að hafa mikið úrval af mis-
þungu lesefni á boðstólum í skólastofunni og á skólabókasafninu. Hér reynir á
útsjónarsemi kennara: Lesefnið má ekki vera of þungt fyrir nemandann en þarf
þó að höfða til hans. Jafn mikilvægt er að vel læsir nemendur geti fundið lesefni
við sitt hæfi í skólanum.
Markviss ritþjálfun.
Læsi snýst um lestur og ritun og sitthvað bendir til þess að
skynsamlegt sé að horfa til beggja þessara þátta við útfærslu náms og kennslu.
Nemendur átta sig á ýmsu með því að skrifa um það og líklegt er að ritþjálfun
auki næmni þeirra gagnvart prentuðu máli og auðveldi þeim að skilja það. Ritun
krefst meðal annars kunnáttu í málfræði, stafsetningu og greinarmerkjasetningu
og þarf ritunarkennarinn að fjalla um þessa þætti í tilteknu samhengi. Lítið hald
virðist vera í samhengislausri málfræðikennslu og kann hún að draga úr leik-
gleði nemenda á ritvellinum. Þess eru hins vegar mörg dæmi að markviss kennsla
sem varðar efnisval og efnistök, gerð málsgreina og efnisgreina með hliðsjón af
ákveðnu umfjöllunarefni, auki ritfærni nemenda. Hafa ber í huga að nemendur
sem eru vel læsir kunna að vera illa skrifandi. Sé raunin sú er lausnin ekki einfald-
lega sú að láta þá skrifa meira heldur þarf komast að því hvar skórinn kreppir og
efla færni þeirra smátt og smátt með hliðsjón af þeirri vitneskju.
Viðvarandi leiðsagnarmat.
Slíkt mat, sem er ýmist formlegt eða óformlegt, er
afar mikilvægt verkfæri í umbótastarfi kennara. Með því meta kennarar stöðu
hvers nemanda á hverjum tíma og geta skipulagt áframhaldandi nám hans á
grunni þess. Matið þarf að vera fjölbreytt og ná yfir athafnir og verk nemandans