LÆSI
30
ingu og vitund um þau vandamál sem viðfangsefnið felur í sér. Það er svo ekki
síður mikilvægt sem þeir læra óbeint á vettvangi: Þeir fylgjast með verklagi á til-
teknu sviði og sjá hvað þeir þurfa að læra og hvernig þeir þurfa að skipuleggja
verkið til að geta unnið það faglega. Í verkefnum af þessu tagi átta nemendur sig
á því hvað það merkir að lesa og skrifa við tilteknar aðstæður í ákveðnu samhengi
–
eins og ljósmóðir eða rafeindavirki, ljóðskáld eða raungreinakennari – en þeim
skilst einnig hvað samvinna og þverfagleg vinnubrögð skipta miklu máli.
Að baki þessarar nálgunar býr sú hugmynd að menntun eigi að taka til sem
flestra þeirra þátta sem snerta hugsun, verk og hamingju fólks. Því geti það skipt
sköpum að viðfangsefni séu nemendum hjartfólgin vegna þess að þau tengist
mennsku þeirra og samfélagi en ekki aðeins þeirri tegund rökhugsunar sem
stundum er talin óháð tilfinningum, samhengi og menningu. Þeir sem aðhyllast
skólastefnu í þessum anda líta jafnframt svo á að það séu ekki síst athafnir (skóla-
STARF), sem nemendum finnist að hafi merkingu og tilgang, sem leiði til þess
að þeir þroskist.
Merkingarbært skólastarf af þessu tagi snýst um að tilteknu markmiði sé náð
og völdum verkfærum beitt til þess að skapa eitthvað nýtt, t.d. hluti eða ferli.
Slíkt skólastarf varðar ekki aðeins hugsun; það krefst þess að nemendur noti
líkamann og fái einhverju áorkað. Þar sem tilgangurinn er skilgreindur er ljóst
hvenær honum hefur verið náð og það eykur sjálfstraust og athafnaþrá nemenda
þegar verkið tekur á sig mynd og verður sýnilegt.
Annar af útgangspunktum skólastarfs af þessu tagi er sá að skólanemendur
þyrsti í þekkingu vegna þess, fyrst og fremst, að hún hafi gildi í sjálfu sér og geti
tekið á sig heillandi form. Sé slík ástríða fyrir hendi hjá nemendum verði námið
ekki markmið í sjálfu sér heldur nauðsynleg forsenda þess að þeir geti unnið verk
sem þeir hafa mikinn áhuga á að vinna. Slík verkefni ýta undir samvirkni vitsmuna
og tilfinninga; nemendur spinna saman merkingarvef sem er mikilvægur vegna
hinna siðferðilegu og fagurfræðilegu þráða sem í honum eru.