Grunnþættir menntunar
29
við hefðbundnar hugmyndir um tilgang lestrarnáms: að börn eigi að læra að ráða
úr leturtáknum svo úr verði mál, orð og setningar, og átta sig á grunnmerkingu
þeirra. Þetta er vitaskuld gott og blessað svo langt sem það nær en reynslan sýnir
hins vegar að sumum þeirra barna, sem standa sig með prýði á lestrarprófum
fyrstu skólaárin, gengur illa að tileinka sér fræðilegt efni í námsbókum þegar þau
verða eldri. Af þessum ástæðum þurfa krakkar að læra að lesa þannig að þeir
komist á lestrarskrið sem dugir þeim öll skólaárin. Í þessu felst meðal annars að
byrjendakennsla í lestri sé ekki bundin við bókstaflega merkingu og hversdags-
mál heldur verði börnin að ná tökum á máli og orðfæri fræðafólks og faghópa á
ýmsum sviðum.
Sérfræðimálin mega þó ekki hellast yfir börn á tiltölulega stuttum tíma heldur
þurfa þau að glíma við mál af því tagi frá upphafi skólagöngu og ná tökum á þeim
jafnt og þétt. Í þessu efni skiptir hið talaða orð geysimiklu máli. Það sem getur
riðið baggamuninn, ekki aðeins gagnvart lestrinum heldur einnig námi barnanna í
framtíðinni almennt talað, er sá orðaforði sem þau fá heima hjá sér og sú þjálfun
sem þau fá þar í að tala um flókna hluti. Góð tök á talmálinu á unga aldri ráða
því miklu um það hvort börn öðlist færni í að lesa fræðilegan texta í efri bekkjum
grunnskóla. Því skiptir miklu máli að foreldrar og kennarar grípi þau tækifæri sem
gefast til að tala við þau um það sem ber fyrir augu í umhverfinu: Hvað heitir
það, hluti af hverju er það, hvers eðlis er það, hvernig virkar það, hvernig má
rannsaka það?
Merkingarrík verkefni
Í ljósi þess sem hefur verið sagt um þátt fagmála og orðræðuhefða ákveðinna
stétta í námi og skilningi ættum við ekki aðeins að kenna nemendum það sem
stendur í bókum heldur reyna eftir föngum að gera þá að „lærlingum“ á tilteknum
fagsviðum. Þessu má einkum koma í kring með því að skipuleggja raunveruleg
verkefni – ekki verkefni sem koma í stað alvöruverkefna eða teljast undirbúningur
fyrir þau heldur verkefni sem skipta máli fyrir nemendurna og umhverfi þeirra. Í
þessu felst ekki síst að viðfangsefni nemenda í skólanum tengist lífi fólks og starfi
utan hans.
Í skólanum njóta lærlingarnir beinnar kennslu sem byggist á skýringum, grein-