Grunnþættir menntunar
27
Hver les?
Börn halda að aðrir hugsi nákvæmlega eins og þau. Það hvarflar varla að
þeim að þeir sem lesa ritverk þeirra hugsi á annan hátt. Þróunin þarf því að ganga út
á að þau skrifi fyrst fyrir þá sem þau þekkja og svo fyrir fjarlægari lesendur. Þegar
nemendur eldast þurfa þeir að gera sér ljóst að innihald og form breytist eftir því hver
væntanlegur lesandi er.
Uppkast.
Það er erfitt fyrir kennara að horfa upp á nemendur sína skrifa texta sem
er morandi í villum og frágangur síður en svo til fyrirmyndar. En hann verður að sjá í
gegnum fingur við þá og má alls ekki láta þá finna að sér líki ekki „subbuskapurinn“.
Nemendur eiga að einbeita sér að því að koma hugsunum sínum á blað og umgjörðin
má ekki trufla þá iðju. Á þessu stigi má kennarinn því ekki falla í þá gryfju að svara þegar
nemendur spyrja um stafsetningu. Geri hann það gefur hann í skyn að ytra form skipti
máli í uppkasti og þá er hann kominn út á hálan ís.
Reglur og samhengi.
Nemandi sem notar málið mikið á auðveldara með að skilja
málfræðina en ella. Við lestur sér hann t.d. hvar settur er stór stafur eða greinarmerki
og hvernig orðum er skipt á milli lína. Hann tekur eftir mismunandi stíl, sér hvernig
orðtök og málshættir skreyta málið o.s.frv. Í rituninni beitir nemandinn málfræðinni á
eigin texta. Hann áttar sig á að hún hefur tilgang og getur nýst honum í daglegu lífi en
er ekki bara óþarfa stagl.
Munnlegur flutningur.
Það er sjálfsögð regla að nemendur lesi verk sín fyrir
bekkjarfélagana strax og þeir hafa lokið við þau. Það má gera dálítið úr þessum lestri,
t.d. með því að láta höfundinn setjast í sérstakan stól, rithöfundastólinn. Hlustendur mega
ekki gera annað á meðan. Þeir eiga bara að hlusta. Þetta eru oft mjög skemmtilegar
stundir.
Kennarinn og kröfurnar.
Of miklar kröfur hamla framför og geta valdið uppgjöf. Of
litlar kröfur leiða heldur ekki til framfara. Það þarf að finna gullna meðalveginn því að
kröfurnar mega aldrei vera það miklar að nemandinn standi ekki undir þeim. Ekki
má gera sömu kröfur til allra nemenda. Þeir standa misjafnlega að vígi og markmiðið er
að þroska hvern og einn sem mest. Samanburður hefur neikvæð áhrif á þá sem standa
verr að vígi. Það á að ganga út frá einstaklingnum, leyfa honum að blómstra á sinn hátt.