Page 22 - Læsi

LÆSI
20
Flestir skrifa líklega undir það að hefðbundið læsi snúist um prentmál en þar
með er ekki öll sagan sögð. Merkingarsköpunin – sama hvaða táknkerfi og mið-
ill eiga í hlut og hvort sem horft er til sendanda eða móttakanda – snýst aldrei
um eitt mál, t.d. prentmál eða talmál, vegna þess að hún litast óhjákvæmilega af
reynslu viðkomandi sem snýst alltaf um ýmiss konar skynjun og skynhrif: liti,
form, lögun, snertingu, angan, hljóð. Hljóðmál í útvarpsleikriti eða prentmál í
skáldsögu kallar til dæmis fram myndir í huga þeirra sem hlusta og lesa; eitthvað
sem fólk hefur lesið kann að hjálpa því að fá botn í kvikmynd. Af þessu má
ráða að hvers kyns læsi sé margmiðlunarlæsi, þ.e. snúist um samverkan margra
táknkerfa.
Jafnframt má til sanns vegar færa að ritun og lestur, og reyndar hvers kyns
sköpun og úrvinnsla efnis, snerti einatt marga flokka samskipta: Samskipti eins
við annan, samskipti einnar manneskju og margra, og samskipti margra við marga
svo ekki sé minnst á samskipti manns við sjálfan sig, hið innra samtal hans við
fjarstatt fólk, sem sumir fræðimenn telja að sé eitt megineinkenni hugsunar okkar.
Ritun og lestur snúast því ekki aðeins um umritun, skilning og túlkun prentmáls
heldur samvirkni margra samskiptavídda. Háskólaneminn, sem minnst var á hér
að framan, ræddi ritsmíð sína við kennara sinn og móður sína og kynnti efnið
einnig fyrir skólasystkinum sínum. Í kjölfarið sigldu líflegar umræður. Ári eftir
að neminn lauk við ritgerðina, rakst blaðakona á hana á netinu og skrifaði um
tiltekinn þátt hennar í blaði sínu. Alþingismaður tók þann þátt upp í fyrirspurnar-
tíma og hvatti opinbera aðila til að láta málið til sín taka. Ráðherra nokkur svaraði
þingmanninum og taldi að hann rangtúlkaði niðurstöður nemandans. Fjallað var
um málið í sjónvarpsþætti sama kvöld og ekki er ólíklegt að það hafi þá borið á
góma á mörgum heimilum eða verið rætt á vinnustöðum morguninn eftir.
Þetta minnir okkur á að skilningur er félagslegt fyrirbæri sem þrífst á
sameiginlegri þekkingu: Ég veit að þú veist það og þú veist að ég veit það. Stund-
um gera menn sér ekki grein fyrir mikilvægi þessarar sameiginlegu reynslu eða
gefa sér að hún sé fyrir hendi þegar hún er það ekki. Þótt samkomulag sé um
merkingu orða og annarra tákna, leggur fólk engu að síður merkingu í þau við
tilteknar aðstæður, oft með því að tala saman, eða túlkar þau í ljósi reynslunnar.
Þegar einhver skilur ekki setninguna „Hittumst undir Jóni Sigurðssyni“ kann