LÆSI
16
verðum við að fara inn í hann með alla lífsreynslu okkar í farteskinu og flétta hana
saman við efni hans þannig að úr verði nýir skilningsþræðir. Lesandinn flytur
með öðrum orðum merkingu inn í texta og flytur svo út úr honum endurskapaða
merkingu sem nýtist honum við tilteknar aðstæður. Læsi má skilgreina á þessum
nótum og segja að í því felist að við getum og viljum nota lestur og ritun til þess
að skapa merkingu sem gagnast okkur í tilteknu félagslegu samhengi.
En hvers eðlis eru hún þessi margumrædda merkingarsköpun? Er hægt að
nefna dæmi sem auðvelda okkur að henda reiður á því sem gerist þegar fólk
skapar merkingu eða leggur sinn skilning í eitthvað? Til þess að skýra muninn á
lestrartækni og merkingarsköpun má segja frá atviki í lífi Alexöndru, bandarískrar
stúlku sem stundaði nám í evrópskum háskóla. Dag nokkurn fékk hún sendibréf
frá rússneskum foreldrum sínum sem höfðu á sínum tíma flust vestur um haf.
Bréfið setti stúlkuna í nokkurn vanda því að þótt hún skildi rússneskt talmál
ágætlega gat hún ekki lesið málið. Búlgörsk skólasystir hennar gat hins vegar
borið fram texta með kyrillískum bókstöfum þótt hún skildi ekki rússnesku. Sú
búlgarska gat því „lesið“ það sem stóð í bréfinu þannig að Alexandra skildi það.
Því er hægt að greina á milli þeirrar lestrartækni sem nefnd er umritun og les-
skilningsins en í lestrinum verða þessir þættir vissulega að haldast í hendur.
Hugleiðing háskólanema nokkurs um eigin ritgerðarsmíð varpar einnig ljósi á
þann greinarmun sem er á lestrar- og ritunartækni og merkingarsköpun. Í fyrstu
snerist vinna hans um úrvinnslu upplýsinga. „Eftir að ég hafði rammað efnið inn
skrifaði ég einfaldlega niður þær tilvitnanir úr heimildunum sem mér fannst skipta
mestu máli, svona í fyrstu atrennu. Sumt skildi ég ágætlega, fannst mér, en annað
eiginlega alls ekki.“ Þarna reynir á undirstöðufærni sem eftirleikurinn byggist á:
Lestrar- og ritunarkunnáttan gerir nemandanum kleift að tína til efni og halda
því til haga þótt efnið sé enn án samhengis og sitthvað vanti upp á skilninginn.
„
Erfiðast var hins vegar að bera saman mismunandi hugmyndir og upplýsingar
um efnið, fá eitthvert vit í þetta miðað við það sem ég vissi fyrir. Og svo þurfti ég
auðvitað að pæla heilmikið í því hvað ég þyrfti að segja mikið og hvernig ég ætti
að raða þessu saman svo aðrir skildu hvað ég meinti.“