Page 16 - Læsi

LÆSI
14
Fyrsta skrefið í þá átt að verða betri hlustandi felst í því að öðlast vitund um eigin hlustun.
Þegar við hlustum á aðra manneskju þurfum við að setja okkur í spor hennar, veita öllum
boðum athygli og gefa henni til kynna að við séum með á nótunum eða spyrja þegar við
skiljum ekki eitthvað. Svo þurfum við að sýna henni samúð; hlusta með hjartanu.
Virk hlustun verður oft til þess að samtal lifnar við og leiðir til skilnings og niðurstöðu,
t.d. þegar Ari spyr Ástu spurningar og hlustar svo vel og bregst þannig við svarinu að
Ásta er þess fullviss að hann viti um hvað málið snýst. Náin tengsl eru jafnframt milli
spurninga og hlustunar. Ef spurning er góð eru meiri líkur á að svarið verði bitastætt
og áhugavert. Þá fer spyrjandinn að hlusta af athygli og getur því spurt markvissari
spurninga sem leiða til markvissari svara.
Margt mælir þess vegna með því að kennarar þjálfi eyru nemenda ekki síður en tunguna.
Slík þjálfun skerpir einnig vitund nemenda um tengsl stafa og hljóða og getur, þegar til
lengdar lætur, aukið samskipta- og námsfærni þeirra til muna.