Page 13 - Læsi

Grunnþættir menntunar
11
snýst hins vegar ekki um það að hafa tilbúin svör á hraðbergi. Með fullri
virðingu fyrir öllum spurningaþáttunum. Og ef við viljum búa æskufólk
undir krefjandi störf og lifandi lýðræði verðum við að venja það af þeim
þankagangi að það sé einfaldlega hægt að finna svör við spurningum á
viðurkenndum“ stöðum á netinu. Jafnframt þurfum við að kenna því að
þekkingu þurfi að setja saman, skapa, með því að vinna úr ýmiss konar
gögnum og heimildum, og horfa á flókin úrlausnarefni af mismunandi
sjónarhólum. Hitt er svo laukrétt að upplýsingatækni nýtist okkur mætavel
við sköpun jafnt sem miðlun þekkingar og ég held að kostir hennar séu
mun meiri en gallarnir. Svo er þessi tækni orðin ríkjandi á öllum sviðum
mannlífsins og skólar verða að taka mið af því. Annars er hætta á að þeir
dæmi sig úr leik.
Geturðu nefnt mér dæmi um læsi og skrift með nýjum formerkjum?
Við erum nú meðal annars að velta fyrir okkur læsishugtakinu á ráðstefn-
unni og mörgum finnst það orðið býsna útþvælt, notað um margs konar
þekkingu og færni. En það er fjölskrúðugur hópur fræðafólks sem sinnir
læsisrannsóknum, læsisfræðingar af ýmsu tagi, móðurmálskennarar, tal-
kennarar, málvísindafólk, sálfræðingar, félagsfræðingar, mannfræðingar,
menningarfræðingar og þetta er engin halelújasamkoma, skiptar skoðanir
um margt. Eins og vera ber.
En ég hugsa um læsi sem merkingarsköpun með tilteknu táknkerfi og
ákveðinni tækni eða tæknimiðli. Stundum koma mörg táknkerfi við sögu
í sama tæknimiðli, eins og t.d. í sjónvarpi þar sem um er að ræða samspil
lifandi mynda, ljósmynda, talmáls og prentmáls og alls konar grafíkur. Og
ekki má gleyma tónlistinni. En núna ráða tölvur við öll þessi táknkerfi og
með réttum jaðartækjum má búa til alls kyns efni í þeim. Þannig að læsi
með nýjum formerkjum snýst um að gera nemendur læsa á alls kyns mál
og þjálfa þá í að búa til ýmiss konar efni. Nýtt læsi er sem sagt ekki bundið
við málvísi í hefðbundnum skilningi heldur við táknvísi í víðum skilningi.
Myndvís nemandi getur til dæmis lesið myndmál og búið til myndefni.
Og er það svona afskaplega mikilvægt, spyrð þú kannski, og þá vitna