Grunnþættir menntunar
61
Hugmyndin um námsbandalag rímar vel við það meginsjónarmið miðlamenntar
að gera skólanemendur að gagnrýnum notendum miðla og virkum skapendum
eigin efnis. Almennt talað felst í þessu skírskotun til þess að þeir eigi að vera
gerendur í eigin lífi, taka þátt í lýðræðislegri umræðu og stefnumótun og ekki sæta
fortakslaust þeim hugmyndum um tilveruna sem haldið er að þeim.
En miðlamennt og læsi í víðum skilningi snerta einnig aðlögun og sóknarfæri.
Með áherslu á námsfærni, sem tengist stafrænni tækni og miðlum, er stefnt að því
að minnka muninn á því sem nemendur læra í skólum og þeirri kunnáttu og færni
sem þeir þarfnast í lífi sínu og starfi. Æ færri störf fela í sér venjubundin verk og við
þær aðstæður skapar sú færni í senn kjölfestu og sveigjanleika. Í þessu sambandi
má nefna rannsóknir sem benda til þess að mörg fyrirtæki sækist eftir starfsfólki
sem geti breytt sjálfu sér og vinnulagi sínu, skapað nýja þekkingu, tileinkað sér nýja
tækni, unnið markvisst úr upplýsingum, tekið ákvarðanir og átt farsæl samskipti
við aðra. Að baki þessum óskalista býr jafnframt sú hugmynd að fólk vilji og þurfi
að halda áfram að læra alla ævi sína – ekki aðeins í þágu lýðræðis eða hagvaxtar
heldur einnig vegna þess að menntun hafi gildi í sjálfu fyrir þá sem afla sér hennar.
Tilgangur náms, og umbunin fyrir það, snertir þá vaxtarmöguleika og lífsgæði
sem það veitir.